Karl Bretaprins og Camilla Parker-Bowles hafa verið gefin saman í hjónaband. Þau gengu rétt í þessu út úr Guildhall, ráðhúsinu í Windsor. Gengu þau til bifreiðar sem ók þeim í Windsorkastala þar sem prestur mun blessa þau. Mikill mannfjöldi var fyrir utan ráðhúsið og fagnaði er Karl gekk út með hina nýju eiginkonu upp á arminn.
Þau Karl og Camilla komu akandi saman í Rolls Royce bíl frá Windsorkastala til ráðhússins en áður höfðu synir Karls, systkini og aðrir tignir gestir gengið inn í ráðhúsið. Foreldrar Karls, Elísabet Englandsdrottning og Filippus prins, voru ekki viðstödd þegar hjónin voru gefin saman en þau verða viðstödd blessunarathöfn í St. Georges kapellu í Windsorkastala, sem hefst innan skamms.
Camilla veifaði til viðstaddra þegar hún steig út úr bílnum og gekk inn í ráðhúsið. Hún var klædd perlulitaðri silkikápu og chiffonkjól frá Robinson Valentine og með hatt frá Philip Treacy. Karl var klæddur hefðbundnum klæðnaði en ekki einkennisbúningi.
Þegar Camilla og Karl giftu sig fékk Camilla titilinn hertogaynjan af Cornwall.