Þjóðverjar gera lítið úr meintri andstöðu páfa við ESB-aðild Tyrkja

Benedikt 16.
Benedikt 16. AP

Horst Köhler, forseti Þýskalands, gerði í dag lítið úr áhyggjum manna af meintri andstöðu nýkjörins páfa, Benedikts 16., við hugsanlega aðild Tyrklands að Evrópusambandinu. Sagði Köhler að það væri evrópskra borgara að skera úr um hvort Tyrkir fengju aðild eða ekki.

Áður en þýski kardínálinn Joseph Ratzinger var kjörinn páfi hvatti hann til þess að á ný yrði hugað að kristnum rótum evrópskrar menningar, og gaf í skyn að aðild Tyrklands að ESB kynni að gagna gegn menningu álfunnar.

„Þetta álit páfans mun ekki skaða okkur,“ sagði Köhler. „Það gleður mig að páfinn skuli leggja áherslu á kristnar rætur Evrópu,“ sagði hann ennfremur, en bætti því við að evrópsk menning væri líka reist á öðrum gildum, eins og til dæmis mannhyggju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert