Átta ára dönsk stúlka lést í gær eftir að hundur af tegundinni Briard beit hana á háls. Að sögn lögreglu var hún í heimsókn hjá föður sínum í bænum Lihme á Jótlandi og var að leik með öðrum börnum er atvikið átti sér stað.
Börnin voru að leik og hundurinn lá í makindum sínum þar hjá. Hann er sagður hafa brugðist við með því að bíta hana í hálsinn er hún beygði sig niður að honum og hugðist strjúka honum.
Að sögn lögreglunnar er ekki vitað til þess að hundurinn hafi áður ráðist á fólk eða sýnt árásargirni. Stúlka var úrskurðuð látin þegar sjúkraflutningamenn komu á vettvang.
Lögreglan tók hundinn í sína vörslu en eigendur hans ákváðu síðan að honum skyldi lógað.