Nýjar vísbendingar hafa borist vegna „dularfulla tónlistarmannsins“

Maðurinn teiknaði þessa mynd af flygli þegar honum voru fenginn …
Maðurinn teiknaði þessa mynd af flygli þegar honum voru fenginn blað og blýantur. AP

Nýjar vísbendingar hafa komið fram varðandi hinn svonefnda „dularfulla tónlistarmann,“ mann sem fannst illa til reika á á götu í Sheerness á Englandi snemma í apríl og hefur ekki sagt eitt einasta orð frá því hann fannst. Frá þessu skýrðu yfirvöld á sjúkrahúsinu sem maðurinn dvelst á í dag og sögðu að þær yrðu rannsakaðar.

Viðurnefnið fékk maðurinn eftir starfsfólk Medway Maritime sjúkrahússins lét hann fá blað og blýant og bað hann að skrifa nafnið sitt. Í stað þess að rita nafn sitt teiknaði maðurinn nákvæmar myndir af flygli. Manninum var þá sýnt píanó í kapellu sjúkrahússins og þá lifnaði hann við, settist við píanóið og lék klukkustundum saman án þess að taka sér hlé.

Starfsfólkið segir að það auki enn á vandann við að komast að því hver og hvaðan maðurinn sé, að öll vörumerki hafa verið klippt af fatnaði hans. „Það er mjög skrýtið - og málið er nógu flókið þótt þetta bætist ekki við,“ segir Adrian Lowther, talsmaður bresku sjúkrahúsanna í West Kent á Englandi, en maðurinn liggur á geðdeild Medway Maritime sjúkrahússins, sem er í Dartford í norðurhluta Kent. Lowther bætti við að breskt götublað hefði gefið manninum píanó en hann róaðist greinilega við að leika á það.

Lowther sagði ennfremur að hringt hefði verið 320 sinnum vegna mannsins í breska neyðarlínu sem safnar upplýsingum um týnt fólk. Þá hefðu 70 tölvupóstar borist eftir að mynd af honum og píanóteikningum hans var birt í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert