Páfi varar við veraldar- og neysluhyggju

Páfi blessar pílagríma í Bari á Ítalíu í dag.
Páfi blessar pílagríma í Bari á Ítalíu í dag. AP

Benedikt páfi XVI varaði við „flótta í neysluhyggju“ og veraldarhyggju í risastórri útimessu sem hann hélt í dag. Hann hvatti einnig til þess að sunnudagar yrðu áfram heilagir dagar. Páfi ávarpaði meira en 150.000 manns í sérstakri messu í borginni Bari við Adríahafið, sem haldin var við lok vikulangrar ráðstefnu kaþólsku kirkjunnar á Ítalíu.

„Það er ekki auðvelt fyrir okkur að vera kristin. Í heiminum sem við búum í flýja svo margir í neysluhyggju, trú er hætt að skipta máli og veraldarhyggja tekin við svo hið andlega líf virðist oft eins og eyðimörk,“ sagði hann.

Hann minntist ekkert á þá hvatningu kirkjunnar til kaþólikka á Ítalíu að taka ekki þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort gera eigi lög um siðfræði í vísindum frjálsari. Biskupar á Ítalíu hafa hvatt fólk til að taka ekki þátt í kosningunum sem eru 12. júní en helmingur þjóðarinnar þarf að taka þátt til að hún sé gild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka