Staðfestir að Mark Felt hafi verið „Deep Throat“ Watergate-málsins

Mark Felt ásamt dóttur sinni Joan utan við hús sitt …
Mark Felt ásamt dóttur sinni Joan utan við hús sitt í dag. AP

Bandaríska blaðið Washington Post, staðfesti í dag að Mark Felt, fyrrum embættismaður hjá bandarísku alríkislögreglunni FBI, væri hinn svonefndi „Deep Throat", heimildarmaður bandarísku blaðamannanna Bob Woodward og Carl Bernstein sem áttu einna stærstan þátt í að fletta ofan af Watergatehneykslinu svonefnda á fyrri hluta sjöunda áratugar síðustu aldar. Watergatemálið varð til þess að Richard Nixon neyddist til að segja af sér embætti forseta Bandaríkjanna árið 1974.

„Ég er sá sem þeir kölluðu Deep Throat," hefur lögmaðurinn John D. O'Connor, eftir Felt, sem nú er 91 árs, í grein sem birtist í nýjasta tölublaði tímaritsins Vanity Fair. Felt hélt því leyndu að hann hefði veitt blaðamönnum Washington Post upplýsingar og sagði ekki fjölskyldu sinni frá því fyrr en árið 2002. Hann ákvað síðan að koma fram nú eftir hvatningu frá fjölskyldunni.

Á fréttavef Washington Post birtist í kvöld yfirlýsing frá þeim Woodward og Bernstein þar sem þeir staðfesta yfirlýsingar Felts um að hann hafi verið heimildarmaðurinn sem þeir nefndu „Deep Throat“ eftir þekktri klámkvikmynd sem vinsæl var á þessum tíma.

„W. Mark Felt var „Deep Throat“ og aðstoðaði okkur með ómetanlegum hætti við umfjöllun okkar um Watergate. En eins og heimildir sýna, aðstoðuðu margir aðrir heimildarmenn og embættismenn okkur og aðra blaðamenn við að semja þau hundruð frétta sem voru skrifaðar um Watergate í Washington Post. segja þeir í yfirlýsingunni.

Ben Bradlee, fyrrverandi ritstjóri Washington Post, sagðist hafa fengið að vita hver „Deep Throat“ var nokkrum vikum eftir að Nixon sagði af sér en hann hefði áður vitað að heimildarmaðurinn var háttsettur innan FBI. „Næstæðsti maðurinn hjá FBI var býsna góð heimild," segir Bradlee. „Ég vissi að blaðið var á réttri leið" í rannsóknarblaðamennskunni.

Á vef blaðsins er haft eftir Woodwaard að Felt, sem var næstæðsti embættismaður innan FBI á áttunda áratug síðustu aldar, hefði komið Washington Post til aðstoðar á tímum þegar samskipti FBI og Hvíta hússins hefðu verið erfið.

Innbrotið í Watergatebygginguna, sem hleypti málinu af stað, var framið skömmu eftir dauða J. Edgar Hoover, forstjóra FBI og læriföðurs Felts. Embættismenn innan stofnunarinnar vildu að innanbúðarmaður tæki við af Hoover og Felt vonaðist til að fá embættið en Nixon skipaði þess í stað L. Patrick Gray, aðstoðardómsmálaráðherra, í embættið.

Í yfirlýsingu, sem fjölskylda Felts sendi frá sér í kvöld, segir Nick Jones, dóttursonur hans: „Fjölskyldan telur að afi minn, Mark Felt, sé bandarísk hetja sem gerði meira en hægt var að ætlast til af honum og setti sjálfan sig í hættu til að bjarga þjóðinni frá hræðilegu ranglæti. Við vonum að Bandaríkin líti sömu augum á málið."

Þá segir í yfirlýsingunni, að Felt sé ánægður með að vera heiðraður fyrir hlutverk hans sem „Deep Throat" ásamt vini hans Bob Woodward. „Eins og hann sagði nýlega við móður mína: Ég býst við að fólk hafi litið á „Deep Throat" sem skúrk, en nú telur það hann vera hetju."

Vangaveltur um hver Deep Throat hafi verið hafa verið efni fjölmargra bóka, sjónvarpsþátta og blaðagreina. M.a. hefur verið leitt að því líkum að á bak við þetta dulnefni hafi leynst George H.W. Bush, fyrrum Bandaríkjaforseti, Alexander Haig, fyrrum starfsmannastjóri Hvíta hússins, eða Fred Fielding, fyrrum starfsmaður Hvíta hússins, svo nokkrar tilgátaur séu nefndar. Því var raunar haldið fram í bók, sem kom út árið 2002, að Felt hefði verið „Deep Throat".

Richard Nixon kveður starfsfólk Hvíta hússins 9. ágúst 1974 eftir …
Richard Nixon kveður starfsfólk Hvíta hússins 9. ágúst 1974 eftir að hann sagði af sér embætti. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert