Norður-Kóreustjórn kallar Dick Cheney „blóðþyrst villidýr“

Cheney.
Cheney. AP

Norður-Kóresk stjórnvöld kölluðu í dag Dick Cheney, varaforseta Bandaríkjanna, „blóðþyrst villidýr“ og sögðu að orð sem hann lét nýverið falla þess efnis að Kim Jong Il, leiðtogi N-Kóreu, væri ábyrgðarlaus enn eina ástæðuna fyrir Norður-Kóreu til að mæta ekki til sex-hliða viðræðna um kjarnorkuáætlun landsins.

Opinber fréttastofa N-Kóreu hafði eftir ónafngreindum talsmanni utanríkisráðuneytisins að orð Cheneys, er hann hafi látið falla þegar sex-hliða viðræðurnar voru ofarlega á baugi, hafi jafngilt því að hann segði N-Kóreumönnum að mæta ekki til viðræðnanna.

Liðið er hátt í ár síðan síðasta lota viðræðnanna, með þátttöku Kóreuríkjanna tveggja, Kína, Japans, Rússlands og Bandaríkjanna, fór fram, en N-Kóreumenn hafa síðan neitað að mæta að samningaborðinu. Það var í viðtali á CNN-sjónvarpinu á sunnudaginn að Cheney sagði að Kim væri „einn ábyrgðarlausasti þjóðarleiðtogi í heimi“ sem stjórni lögregluríki og láti almenna borgara þjást af fátækt og næringarskorti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert