Þörf á háum fjárhæðum til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu fuglaflensu í mönnum

Fuglaflensan getur borist úr fuglum í menn.
Fuglaflensan getur borist úr fuglum í menn. AP

Þörf er á um 150 milljón dollara framlagi, jafnvirði tæpra 10 milljarða íslenskra króna, til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu fuglaflensusmits í mönnum. Peninga þarf meðal annars að nota til aðgerða gegn hugsanlegum fuglaflensufaraldri, að því er Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) tilkynnti í dag.

Shigeru Omi, svæðisstjóri hjá WHO, sagði að „mjög fljótlega“ yrði hægt að halda fund þeirra ríkja sem hygðust leggja fram fé vegna sjúkdómsins. Þetta sagði Oni við lok þriggja daga langrar ráðstefnu um útbreiðslu fuglaflensu sem haldin var í Malasíu.

150 milljón dollara framlagið, sem þörf er á, yrði viðbót við þá 100 milljón dollara sem sérfræðingar á vegum Sameinuðu þjóðanna sögðu á ráðstefnunni að væri nauðsynleg fjárhæð til þess að berjast gegn útbreiðslu fuglaflensu í dýrum næsta áratuginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert