Mubarak segir að sendiherra Egyptalands í Írak hafi verið myrtur

Myndband, sem sýndi egypska sendiherrann í Írak, var birt á …
Myndband, sem sýndi egypska sendiherrann í Írak, var birt á netsíðu í dag. Reuters

Hosni Mubarak, forseti Egyptalands, hefur lýst samúð sinni vegna dauða Ihab al-Sherifs, sendiherra Egyptalands í Íraks. Sagði Mubarak að þeir sem hefðu ráðið sendiherranum bana væru hryðjuverkamenn.

„Þetta hryðjuverk hefur engin áhrif á stuðning Egyptalands við Írak og írösku þjóðina," sagði í yfirlýsingu frá skrifstofu Mubaraks.

Sendiherranum var rænt um síðustu helgi. Armur hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda í Írak lýsti því yfir í dag, að sendiherrann hefði verið drepinn fyrir að vera fulltrúa harðstjóra sem styddu gyðinga og krossfara.

Íraski hópurinn, sem er undir stjórn Jórdanans Abu Musab al-Zarqawis, birti einnig myndband á netinu þar sem sendiherrann sést tala.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka