Íslenskir karlmenn allra karla elstir í Evrópu

Xiong Fazhen, með eiginmanni sínum, Zhu Yingzhou, í þorpinu Fengtang …
Xiong Fazhen, með eiginmanni sínum, Zhu Yingzhou, í þorpinu Fengtang í Guizhouhéraði í Kína. Xiong er 103 ára og eiginmaðurinn ári yngri. Þau hafa verið gift í 90 ár. Kínverjar og Japanir eru sagðir verða elstir allra í heimi. Reuters

Karlmenn í Rússlandi verða að meðaltali 58,8 ára gamlir. Þetta er stysti meðalaldur í Evrópu. Íslenskir karlmenn lifa hins vegar 20,2 árum lengur en kynbræður þeirra í austri. Meðalaldur íslenskra karlmanna er 79 ár og verða þeir elstir allra karla í álfunni.

Í skýrslu hagstofu Rússlands um meðaldur í Evrópu kemur fram, að meðalaldur sænskra karla sé 77,9 ár, 76,9 ár á Spáni og 75,8 í Frakklandi.

Spænskar konur lifa lengst allra kvenna í Evrópu eða í 83,6 ár. Konur í Tyrklandi lifa hins vegar styst allra, eða í 71,6 ár. Konur í Moldavíu hafa næst stystan meðalaldur í álfunni. Þær verða að meðaltali 71,6 ára gamlar. Rússneskar kynsystur þeirra verða hins vegar 72 ára.

Í skýrslunni er leitt að því líkum að fall kommúnismans árið 1991, mikil verðbólga og atvinnuleysi eigi sök á kröppum kjörum Rússa. Ellilífeyrisþegum fjölgaði mikið í kjölfarið og árið 2000 voru þeir orðnir fleiri en börn og unglingar í landinu. Þá létust 12 af hverjum 1000 börnum áður en þau náðu eins árs aldri en það er fimm sinnum hærri ungbarnadauði en hér á landi. Í Tyrklandi er hann hins vegar umtalsvert hærri. Þar í landi látast 40 af hverjum 1000 börnum áður en þau ná eins árs aldri.

Þá er greint frá því að Rússar hafi að meðaltali um 300 dollara í laun á mánuði (rétt rúmar 19.000 íslenskar krónur) og sé fjórðungur landsmanna undir fátæktarmörkum. Sé það takmark Vladimirs Pútins, forseta Rússlands, að bæta kjör í landinu og koma böndum á fátækt.

The Moscow Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert