Bush segir að heiðra eigi fallna hermenn með því að halda stríðinu áfram

Bush heldur ræðu á búgarði sínum á dögunum.
Bush heldur ræðu á búgarði sínum á dögunum. AP

George W. Bush Bandaríkjaforseti sagði ættingjum hermanna sem fallið hafa í Íraksstríðinu að besta leiðin til að heiðra minningu fallinna hermanna væri að sigra í stríðinu gegn hryðjuverkum. Fjöldi fólks mótmælir nú stríðinu við búgarð Bush í Texas en Cindy Sheehan, sem missti son sinn í Írak, leiðir mótmælin.

„Við verðum að klára verkefnið sem hermenn okkar hafa fórnað lífi sínu fyrir og heiðra minningu þeirra með því að ljúka því,“ sagði Bush í vikulegu útvarpsávarpi í dag.

„Þeir vita að ef við tökumst ekki á við þessa vondu menn í útlöndum, megum við eiga von á að mæta þeim einn daginn í okkar eigin borgum og á okkar eigin götum. Þeir vita að það er öryggi hvers einasta Bandaríkjamanns í húfi í þessu stríði og þeir vita að við munum ekki gefast upp,“ hélt Bush áfram.

Sheehan er 48 ára gömul kona frá Vacaville í Kaliforníu. Hún hefur ásamt fleiri ættingjum fallinna hermanna haldið til skammt frá búgarði Bush í Crawford í Texas og beðið þess að forsetinn komi og eigi við hana orð. Bush dvelur nú á búgarðinum í fimm vikna sumarfríi.

Erindi Sheehan við Bush er að biðja hann um að draga bandarískt herlið frá Írak, en sonur hennar Casey var liðsmaður hersins og féll í Írak á síðasta ári, 24 ára að aldri.

Cindy Sheehan ásamt mótmælendum við búgarð Bush í vikunni.
Cindy Sheehan ásamt mótmælendum við búgarð Bush í vikunni. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert