Norður-Kórea sakar Bandaríkjamenn um að skipuleggja kjarnorkuárás

Kim Jong-il, leiðtogi Norður-Kóreu.
Kim Jong-il, leiðtogi Norður-Kóreu. Reuters

Stjórnvöld í Norður-Kóreu sökuðu í dag Bandaríkjastjórn um að hafa í hyggju að afvopna sig og jafna síðan landið við jörðu með kjarnavopnum. Tveir dagar eru síðan þáttaskil voru talin hafa orðið í samningaviðræðum er ætlað var að draga úr spennu milli Norður-Kóreu og annarra ríkja.

Frá því n-kóresk stjórnvöld hétu því í fyrradag að hverfa frá kjarnorkuvopnaáætlun sinni í skiptum fyrir efnahags- og öryggismálaaðstoð hefur orðalagið í yfirlýsingum þeirra verið allt annað en friðsamlegt. Hafa vaknað alvarlegar efasemdir um hvort Norður-Kóreumenn muni standa við samkomulagið og staðfest þykir að fyrirheit þeirra séu jafnan óáreiðanleg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert