Tveir létust í eldgosi í El Salvador

Öskustrókur úr eldfjallinu í gær.
Öskustrókur úr eldfjallinu í gær. AP

Tveir létust þegar eldfjallið Ilamatepec, eða Santa Ana, gaus í El Salvador í gær. 2.000 manns, sem búa í námunda við fjallið þurftu að yfirgefa heimili sín. Eldfjallið, sem er það stærsta í El Salvador, hefur ekki gosið í eina öld. Að sögn eldfjallafræðings náði svartur skýstrókur úr eldfjallinu 15 kílómetra upp í loft.

Francisco Barahona, eldfjallafræðingur við háskólann í El Salvador, segir bergkviku hafa runnið úr fjallinu í námunda við bæ, sem liggi við það en margir íbúa þess starfa á kaffibaunaekru sem liggur undir rótum fjallsins.

Þeir sem létust voru í hópi 200 íbúa sem flúðu frá smáþorpinu Palo Campana þegar byrjaði að gjósa með þeim afleiðingum að heit jarðskriða og vatn kom úr gígnum og rann í átt til þorpsins. Sjö slösuðust þegar þeir urðu fyrir sjóðheitum steinum á stærð við fótbolta sem skutust úr fjallinu.

Innanríkisráðherra El Salvador lýsti yfir neyðarástandi á um fjögurra kílómetra svæði umhverfis eldfjallið en um 20.000 manns búa á svæðinu.

Santa Ana, eða Ilamatepec, er 2.381 metra hátt og hæsta fjall í El Salvador. Það gaus síðast árið 1904. Að sögn Eldu Godoy, sem starfar við eftirlit með eldfjallavirkni í landinu, varð fyrst við virkni í fjallinu um miðjan ágúst. Hins vegar hafi fjallið verið stillt síðan á fimmtudag. Því hafi gosið í gær komið á óvart.

Má búast við áframhaldandi gosi á næstu dögum eða vikum og varaði Godoy við jarðskriðum úr fjallinu í kjölfarið.

Hrauntaumur úr eldfjallinu Santa Ana.
Hrauntaumur úr eldfjallinu Santa Ana. AP
Íbúar smáþorps í grennd við fjallið kanna aðstæður eftir gosið.
Íbúar smáþorps í grennd við fjallið kanna aðstæður eftir gosið. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert