Talsmaður pakistanska hersins sagði í dag að tala þeirra sem látið hafi lífið í jarðskjálftanum í nótt kunni að hlaupa á þúsundum. Eyðileggingin af völdum skjálftans væri gífurleg. Mest hafi tjón orðið í pakistanska hluta Kasmírhéraðs. Þegar hefur verið staðfest að hátt í 500 manns hafi látist í Pakistan, Indlandi og Afganistan. Skjálftinn mældist 7,6 á Richter.
Skjálftinn varð í dagrenningu að staðartíma svo að segja beint undir línunni sem skilur á milli pakistanska og indverska hluta Kasmírhéraðs.
Jarðvísindastofnun Bandaríkjanna og Veðurstofan í Pakistan sögðu skjálftann hafa mælst 7,6 á Richter, en japanska veðurstofan sagði hann hafa verið sterkari, eða 7,8. Upptökin voru um 100 km norðaustur af Islamabad, samkvæmt flestum mælingum. Mikil skjálftavirkni er á þessum slóðum. Kasmírhérað situr beint ofan á skilum Evrasíu- og Indlandsflekans.
Skjálftans varð vart á stórum svæðum í Pakistan, Indlandi og Afganistan. Hann fannst í bænum Quetta, um 700 km suðvestur af Islamabad, og einnig í borginni Kunduz í norðurhluta Afganistans, sem er um 500 km norður af Islamabad. Haft er eftir íbúum í Islamabad að skjálftinn hafi staðið í um hálfa mínútu. Eftirskjálfti, sem ekki var eins öflugur, fannst í um fimm sekúndur.