Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur meinað sérfræðingum á vegum Sameinuðu þjóðanna aðgang að föngum sem eru í haldi í herfangelsinu á Guantanamo flóa á Kúbu. Hann gerði að engu hungurverkfall fanga, sagði það einungis vera brellu til þess að ná athygli fjölmiðla.
Bandaríska varnarmálaráðuneytið í Pentagon bauð í síðustu viku þremur mannréttindasérfræðingum til þess að fylgjast með starfsemi í herfangelsinu. Sérfræðingarnir hafa þó sagt það að þeir þiggi ekki boðið nema þeir megi ræða við fangana í einrúmi.
Rumsfeld neitaði því og sagði að Alþjóðanefnd Rauða krossins hafi nú þegar fullan aðgang að föngunum. „Við höfum því ekki löngun til þess að bæta við fleira fólki sem myndi hafa víðtakan aðgang,“ sagði Rumsfeld á blaðamannafundi í Pentagon.
Það er stefna Alþjóðanefndar Rauða krossins að birta ekki það sem starfsmenn hafa komist að í því skyni að halda þeim víðtæka aðgangi sem þeir hafa að fangelsum, sem Rauði krossinn kæmist annars ekki inn í.
Það væri hinsvegar í verkahring sérfræðinga SÞ að skila skýrslu um það hvað þeir sæju og heyrðu í Guantanmo herfangelsinu.
Pentagon ákvað að bjóða sérfræðingunum að heimsækja fangelsið í kjölfar hungurverkfalls sem hefur staðið í yfir þrjá mánuði. Talið er að u.þ.b. 200 fangar taki þátt í verkfallinu til þess að mótmæla því að ekki liggi fyrir hversu lengi þeim verður haldið í fangelsinu.
„Ég býst við því að það sem þeir eru að reyna að gera er að ná athygli fjölmiðla. Þeim hefur augljóslega tekist það.,“ sagði Rumsfeld.