Óeirðunum mótmælt í París

Mótmælendur báru skilti í París dag sem á stóð „Stöðvið …
Mótmælendur báru skilti í París dag sem á stóð „Stöðvið ofbeldið“. Reuters

Öryggisgæsla var hert í miðborg Parísar í dag í kjölfar þess að örþreyttir íbúar óeirðasvæðanna í úthverfum borgarinnar sameinuðust í mótmælasetu við Eiffel-turninn. Vilja þeir með því ýta undir að stjórnvöld bindi enda á óeirðirnar sem nú hafa geisað í rúmar tvær vikur. Óeirðaöldurnar hefur eitthvað lægt í landinu og er tímasetning mótmælanna einkum tengd Vopnahlésdeginum sem haldinn er hátíðlegur í Frakklandi í dag, til minningar um lok fyrri heimsstyrjaldarinnar.

Lögregla hefur slegið skjaldborg um stóra hluta miðborgar Parísar og óeirðalögregla stendur vörð um Champs-Elysées breiðgötuna og nærri forsetahöllinni. Alls munu 2.200 lögreglumenn vera á vakt í miðborginni. Sagði ríkislögreglustjóri Frakka, Michel Gaudin, í ræðu sinni í tilefni dagsins, að nú væri ekki óskað eftir vopnahléi heldur friði í úthverfunum. Fleiri bílar brunnu í úthverfum Parísar í nótt en í fyrrinótt, þó svo óeirðir hafi minnkað á landinu öllu.

Alls hafa nú tæp fjögur hundruð manns verið handtekin frá því óeirðirnar hófust, að sögn dómsmálaráðuneytisins. 272 hafa verið sakfelldir við flýtiréttarhöld og bíða hinir þess að mæta fyrir rétt. 81 þeirra mun ólögráða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert