Breskur embættismaður hefur verið ákærður fyrir að hafa lekið upplýsingum sem var að finna á minnisblaði ríkisstjórnarinnar. Þar kom fram að Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hafi sannfært George W. Bush Bandaríkjaforseta um að sprengja ekki arabísku fréttastöðina Al-Jazeera.
Samkvæmt breska dagblaðinu Daily Mirror hafði Bush sagt við Blair, þegar þeir hittust 16. apríl sl., að höfuðstöðvar Al-Jazeera í Doha á Katar væri skotmark Bandaríkjanna. Bandarísk stjórnvöld hafa reglulega sakað arabísku fréttastöðina um að vera boðberi and-amerískra viðhorfa.
Bresk yfirvöld hafa ekki viljað tjá sig um málið, en lögðu áherslu á það að ekki væri rætt um skjöl sem hefði verið lekið út.
Al-Jazeera fréttastöðin segist hafa vitað af fyrirætlunum Bush en kvaðst ekki vilja tjá sig um málið.
Umræddur embættismaður, David Keogh, sem starfaði á skrifstofu ríkisstjórnarinnar, er sakaður um að hafa komið minnisblaðinu í hendur Leo O´Connor, sem starfaði áður hjá breska þingmanninum Tony Clarke. Keogh og O´Connor munu mæta fyrir rétt í næstu viku.
Samkvæmt upplýsingum Daily Mail hefur Clarke skilað minnisblaðinu á skrifstofur forsætisráðuneytisins.
Í apríl árið 2003 lést blaðamaður Al-Jazeera í sprengjuárás Bandaríkjamanna í Bagadad. Að sögn talsmanna hersins var sagt að árásin hefði verið gerð fyrir mistök.
Árið 2002 eyðilagðist skrifstofa arabísku fréttastöðvarinnar í Kabúl í Afganistan þegar bandarískt flugskeyti lenti þar. Skrifstofurnar voru auðar þegar sprengjan sprakk. Að sögn bandarískra yfirvalda var talið að hryðjuverkamenn héldust þar við.
Peter Kilfoyle, fyrrverandi varnamálaráðherra í ríkisstjórn Blairs, kallaði eftir því að skjalið yrði gert opinbert. „Ég tel að þeir ættu að skýra hvað nákvæmlega gerðist við þetta tækifæri,“ sagði Kilfoyle.