Franskur þingmaður sem segir að óeirðirnar í landinu fyrir skömmu megi rekja til ofbeldiskenndrar rapptónlistar hefur farið fram á það að stjórnvöld dragi rappara fyrir dómstóla.
„Þegar fólk hlustar á þetta liðlangan daginn og þessi orð sveima í höfðinu á því skyldi engan undrað að það sjái rautt um leið og það gengur framhjá lögreglumanni eða fólki sem er ólíkt því sjálfu,“ sagði þingmaðurinn, Francois Grosdidier, í útvarpsviðtali í dag.
Hann situr á þingi fyrir flokk Jacques Chiracs forseta, UMP, og skar upp herör gegn hatursfullum söngtextum fyrr á þessu ári, áður en óeirðir brutust út í úthverfum franskra borga í lok október. Hann segist nú hafa tryggt sér stuðning 200 annarra þingmanna.
Rapparinn Monsieur R, sem er í hópi þeirra er Grosdidier beinir spjótum sínum að, segir fráleitt að ungt fólk hafi hafið óeirðir vegna áhrifa frá rapptónlist. „Hip hop er óhefluð listgrein svo að við notum óheflað málfar,“ sagði Monsieur R, sem réttu nafni heitir Richard Makela, í sjónvarpsviðtali. „Við erum ekki að hvetja til ofbeldis.“
Saksóknari í París hefur á grundvelli kæru sem Grosdidier lagði fram í ágúst fyrirskipað rannsókn á laginu „FranSSe“ eftir Monsieur R, þar sem rapparinn lýsir óbeit sinni á Frakklandi og sögufrægum Frökkum á borð við Napóleón og Charles de Gaulle. Grosdidier segir að lög sem þessi hvetji til kynþáttahaturs og ætti flutningur þeirra í ljósvakamiðlum að vera bannaður.