Iyad Allawi, fyrrum forsætisráðherra Íraks, segir að mannréttindabrot séu framin í Írak í jafn miklum mæli og meðan á valdatíma Saddams Husseins, fyrrverandi forseta stóð. Allawi segir í viðtali við breska blaðið Obserber í dag, að leynilegar lögreglusveitir pynti og myrði Íraka í leynilegum neðanjarðarbyrgjum.
Allawi segir í viðtalinu, að vopnaðir flokkar fari sínu fram í skjóli innanríkisráðuneytis landsins og glæpamenn hafi komist inn í lögreglu landsins. Hvetur hann til aðgerða til að koma í veg fyrir að þessi „sótt" breiðist út innan ríkisstjórnarinnar.
Að sögn breska ríkisútvarpsins virðist Allawi vera með þessum ummælum að skapa sér stöðu fyrir væntanlegar þingkosningar í Írak.
„Ástandið er orðið eins eða jafnvel verra en það var á valdatíma Saddams," sagði Allawi. „Þetta er viðeigandi samanburður. Fólk man eftir tíma Saddams. Þetta voru ástæður þess að við risum upp gegn Saddam Hussein og nú verðum við vitni að samskonar hlutum."
Fyrir hálfum mánuði fundu bandarískir hermenn 170 fanga í leynilegri fangageymslu í byggingu á vegum innanríkisráðuneytisins í Bagdad. Föngunum virtist hafa verið misþyrmt.
Allawi var fyrsti bráðabirgðaforsætisráðherra Íraks en fékk ekki nægan stuðning í kosningum í janúar sl. til að halda völdum. Núverandi forsætisráðherra er Ibrahim al-Jaafari. Allawi hefur myndað kosningabandalag sem tekur þátt í kosningum sem fara fram í desember.