Ísraelar segja ekki koma til greina að taka upp viðræður við Hamas

Shaul Mofaz.
Shaul Mofaz. Reuters

Varnarmálaráðherra Ísraels, Shaul Mofaz, sagði í dag að Ísraelar muni ekki ræða við Hamas-samtökin, þrátt fyrir að þau hafi unnið sigur í kosningum til palestínska þingsins í vikunni. „Við munum ekki undir nokkrum kringumstæðum ræða við Hamas,“ sagði Mofaz í viðtali við ísraelska sjónvarpsstöð. „Við viljum ekki með nokkrum hætti veita Hamas lögmæti.“

Mofaz sagði ennfremur að Ísraelar myndu ekki útiloka að í framtíðinni ráði þeir af dögum leiðtoga Hamas, þrátt fyrir að þeir kunni að taka sæti í heimastjórninni. „Enginn sem er í forsæti fyrir hryðjuverkasamtökum sem halda áfram að vinna hryðjuverk gegn Ísrael er öruggur,“ sagði hann. „Ef Hamas vinnur hermdarverk munu samtökin sæta harðari árásum Ísraela en nokkru sinni fyrr.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert