Rússar veittu Írökum upplýsingar um hernaðaráætlanir Bandaríkjamanna

Þungvopnaðir bandarískir hermenn í Írak.
Þungvopnaðir bandarískir hermenn í Írak. AP

Rússar veittu Írökum leyniþjónustuupplýsingar um hernaðaráætlanir Bandaríkjamanna á fyrstu dögum innrásar alþjóðaliðsins, undir stjórn Bandaríkjamanna, í Írak 2003. Þetta kemur fram í skýrslu sem bandaríska varnarmálaráðuneytið, Pentagon, hefur birt. Þar segir að Rússar hafi komið skilaboðum til Íraka með milligöngu sendiherra síns í Bagdad. Rússar hafa ekki brugðist við skýrslunni.

Frá þessu greinir fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC.

Í einu tilviki var um að ræða rangar upplýsingar, segir í Pentagonskýrslunni, og kom það sér vel fyrir Bandaríkjamenn að Írakar fengju þær. Ennfremur er í skýrslunni vitnað í íraskt minnisblað þar sem talað er um rússneska „heimildamenn“ í aðalstöðvum bandaríska hersins í Qatar.

Í Pentagonskýrslunni segir að á íraska minnisblaðinu segi: „Samkvæmt upplýsingum sem Rússarnir hafa fengið frá heimildamönnum sínum í stjórnstöð Bandaríkjamanna í Doha eru Bandaríkjamenn sannfærðir um að ógerlegt sé að hertaka íraskar borgir.“

Röngu upplýsingarnar sem Rússar báru Írökum vörðuðu dagsetningu meginárásar Bandaríkjamanna á Bagdad. Í skjali frá íraska utanríkisráðherranum til Saddams Husseins, þáverandi forseta, dagsettu 2. apríl 2003, er vitnað í upplýsingar frá rússnesku leyniþjónustunni og sagt að árásin myndi ekki hefjast fyrr en 15. apríl. Í raun hófst árásin mun fyrr og borgin var fallin um það bil viku fyrir 15. apríl.

Í skýrslu Pentagon segir að Rússar hafi átt viðskiptahagsmuna að gæta varðandi íraska olíu, og háttsetur talsmaður bandaríska hersins sagði að talið væri að þessir hagsmunir hafi verið ástæðan fyrir þessum aðgerðum Rússa.

Í Pentagonskýrslunni segir ennfremur að meginástæða þess að íraski herinn laut í lægra haldi hafi verið vanhæfni Saddams í herstjórn. Sífelld afskipti hans af aðgerðum hersins hafi leitt til ósigursins. Í skýrslunni segir að Saddam hafi skort tengsl við veruleikann og hann hafi fyrst og fremst hugsað um að koma í veg fyrir innanlandsátök og ógnina sem stafaði af Íran.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka