Danir stefna á reykingabann á næsta ári

Danir stefna á að banna reykingar á börum og veitingastöðum.
Danir stefna á að banna reykingar á börum og veitingastöðum. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Danska ríkisstjórnin stefnir á að banna reykingar á börum og veitingahúsum á næsta ári, en sagt er að stærri veitingastaðir geti fengið að hafa sér herbergi þar sem reykingar verða leyfðar. Ef bannið verður samþykkt af þinginu mun það taka gildi í apríl á næsta ári og Danmörk bætast í hóp þeirra landa í Evrópu sem takmarkað hafa reykingar á almannafæri.

Írland, Ítalía, Malta, Noregur, Svíþjóð og Skotland hafa nú þegar bannað reykingar á börum og veitingahúsum. „Markmiðið er alveg ljóst, nefnilega að maður eigi að geta farið ferða sinna án þess að anda að sér reyk gegn vilja sínum,” sagði Lars Løkke Rasmussen, heilbrigðisráðherra Dana.

Danska ríkisstjórnin hefur ekki viljað banna reykingar á vinnustöðum og telur að slíkt sé undir vinnuveitendum komið. Reykingar hafa núþegar verið bannaðar á mörgum opinberum stöðum og síðan í júní hefur það verið skylda að hafa skilti við inngang veitingahúsa og á börum um þau reykingabönn sem þar kunna að vera.

Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisyfirvöldum í Danmörku er áætlað að um 12 þúsund Danir deyi árlega úr sjúkdómum sem tengjast reykingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert