Sex manns slösuðust, sumir alvarlega, þegar svalir, sem fólkið stóð á, gáfu sig og féllu niður á steinsteypta stétt. Þetta gerðist í Nakskov á Lálandi í Danmörku í morgun. Að sögn danskra fjölmiðla var fólkið á námskeiði í húsinu og hafði farið út á svalirnar til að reykja.
Svalirnar voru úr timbri en festar með járnfestingum á annarri hæð hússins. Björgunarstarf gengur illa sökum þess hve lítill húsagarðurinn er. Hugsanlegt er að timbrið hafi verið fúið.