Uppnám varð í gærkvöldi um borð í farþegavél bandaríska flugfélagsins American Airlines þegar farþegar sáu að fimm manna hópur útlendinga, sem var um borð í flugvélinni, voru að lesa flughandbækur. Óttuðust farþegarnir að mennirnir, sem voru greinilega Arabar og töluðu saman á torkennilegu tungumáli, ætluðu að ræna flugvélinni og nota hana til hryðjuverka.
Óeinkennisklæddir lögreglumenn, sem voru um borð í vélinni, tóku mennina í sína vörslu. Þegar flugvélin lenti á Newarkflugvelli í New Jersey ruddust vopnaðir lögreglumenn inn í vélina og handjárnuðu mennina fimm, sem veittu enga mótspyrnu. Aðrir farþegar urðu að bíða meðan farangur þeirra var borinn úr vélinni og settur á flughlaðið þar sem sprengjuleit fór fram.
En eftir langar yfirheyrslur bandarísku alríkislögreglunnar yfir mönnunum kom í ljós að mennirnir voru herþyrluflugmenn frá Angola og Ísrael sem voru að koma úr þjálfunarbúðum Bandaríkjahers í Texas. Tungumálið dularfulla var portúgalska, sem er opinbert mál í Angola.