Þrír Írakar drepnir fyrir að vera í stuttbuxum

Landsliðsþjálfari Íraks í tennis og tveir úr liðinu voru skotnir til bana í gær vegna þess að þeir voru í stuttbuxum, að sögn fulltrúa úr Ólympíunefnd landsins. Mennirnir þrír voru drepnir í hverfinu al-Saidiya í Bagdad. Þeir voru allir í stuttbuxum en uppreisnarmenn sendu frá sér viðvörun fyrir skömmu þar sem þeir bönnuðu fólki að klæðast stuttbuxum.

Morðingjarnir stöðvuðu bifreið mannanna, tveir íþróttamenn stigu út og voru skotnir í höfuðið, að sögn vitnis. Sá þriðji var skotinn inni í bílnum. „Byssumaðurinn dró líkið út úr bílnum og fleygði því ofan á hin tvö og stal svo bílnum,“ sagði vitni sem kaus nafnleynd.

Bæklingum var dreift í hverfinu þar sem stuttbuxur voru bannaðar. Í síðustu viku var 15 tae kwon do íþróttamönnum rænt á vegi milli Falluja og Ramadi. Krafist er lausnargjalds fyrir þá. BBC segir frá þessu á vef sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert