Þýsk kona dæmd í 15 ára fangelsi fyrir að myrða átta börn sín

Sabine Hilschenz hlýðir á dóminn í dag.
Sabine Hilschenz hlýðir á dóminn í dag. AP

Þýsk kona var í dag fundin sek um manndráp og dæmd í 15 ára fangelsi fyrir að myrða átta nýfædd börn sín. Dómstóll í Frankfurt an der Oder fann konuna seka um átta manndrápsákærur, en grunur leikur á að hún hafi myrt níunda barnið árið 1988, en vegna fyrningarákvæða er ekki hæt að rétta í því máli.

Konan heitir Sabine Hilschenz og er fertug. Hún var handtekin eftir að líkamsleifar barnanna fundust í júlí sl., grafnar í blómapotta og fiskabúr í garðinum við heimili foreldra hennar, skammt frá landamærunum að Póllandi. Konan neitaði að bera vitni við réttarhöldin, en hún sagði rannsóknarlögreglumönnum að hún hafi verið ölvuð þegar börnin fæddust og muni ekki eftir fæðingunum.

Hún var upphaflega ákærð fyrir morð, en ákærurnar voru mildaðar þar sem ekki þótti óyggjandi að hún hafi ætlað að reyna að fela ódæðisverkin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert