Gordon Brown segir að skylda eigi innflytjendur til að læra ensku

Gordon Brown.
Gordon Brown. Reuters

Gordon Brown, fjármálaráðherra Bretlands, segir að innflytjendur sem setjist að í landinu verði að læra ensku til að geta fengið vinnu. Sagði hann í viðtali við BBC að skylda verði þá sem ekki læri ensku af sjálfsdáðum til að gera það. Einnig verði að kenna innflytjendum grundvallaratriði í breskri sögu til að þeir geti tileinkað sér grunngildi eins og frelsi og umburðarlyndi, sagði Brown.

„Ég tel að þeir sem flytjast hingað til lands og tilheyra bresku samfélagi eigi að fara að reglum,“ sagði hann ennfremur. „Liður í því er að læra ensku. Skilningur á breskri sögu er einnig liður í því, og þess vegna tel ég að gera eigi breytingar á námsskrám.“

Brown lét þessi orð falla í aðdraganda útgáfu bæklings um framtíð evrópskra háskóla, þar sem sagt er að víðtækra breytinga á yfirstjórn og fjármögnun sé þörf til að tryggja að Evrópa dragist ekki aftur úr Bandaríkjunum og vaxandi efnahagsveldum á borð við Indland og Kína. Brown segir að Bretar verði að auka framlög til háskólastigsins til að halda samkeppnisstöðu sinni á heimsmarkaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka