George W. Bush Bandaríkjaforseti sagði í dag að Íranar hefðu vikur en ekki mánuði til að ákveða að hætta auðgun úrans, en ella myndu þeir sæta refsiaðgerðum af hálfu öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Kanslari Austurríkis, Wolfgang Schüssel, sagði í viðtali sem birt var í dag, að Íranar hefðu frest fram í miðjan júlí, þegar fram fer fundur áttaríkjahópsins, G8.
„Við höfum veitt Írönum takmarkaðan tíma - vikur, ekki mánuði - til að meta tillöguna,“ sagði Bush, en fyrr í vikunni var lögð fyrir írönsk stjórnvöld tillaga frá Vesturlöndum um tilslakanir gagnvart Írönum ef þeir féllust á að hverfa frá kjarnorkuáætlun sinni.
Íranar segjast einungis ætla að nota kjarnorku í friðsamlegum tilgangi, en Bandaríkjamenn og fleiri Vesturlandaþjóðir óttast að þeir hyggist smíða kjarnorkusprengju.