Þrír fangar í fangabúðum Bandaríkjamanna við Guantánamoflóa á Kúbu frömdu sjálfsmorð í gær. Segja mannréttindasamtök að fangarnir, tveir Sádar og einn Jemeni, hafi hengt sig í klefum sínum en þeir hafi verið fullir örvæntingu vegna meðferðarinnar sem þeir hafi sætt í búðunum. Yfirmaður fangabúðanna segir, að sjálfsmorðin jafngildi óhefðbundnum hernaðaraðgerðum gegn Bandaríkjamönnum.
George W. Bush, Bandaríkjaforseti, lýsti í gærkvöldi áhyggjum yfir sjálfsmorðum í Guantánamo en þar eru í haldi um 460 mann, sem Bandaríkjamenn handtóku aðallega í Afganistan í tengslum við baráttuna gegn hryðjuverkastarfsemi.
Fangar þar hafa nokkrum sinnum reynt að fremja sjálfsmorð frá því búðirnar voru reistar fyrir fjórum árum en tilraunirnar hafa ekki tekist fyrr en nú.
Harry Harris, aðmíráll og stjórnandi fangabúðnanna, segir að fangarnir þrír hafi notað föt og rúmfatnað til að hengja sig. Læknar hafi reynt að endurlífga mennina þegar þeir fundust en án árangurs. Rannsókn á dauðsföllunum stendur yfir.
Harris sagðist ekki halda að mennirnir hefðu svipt sig lífi vegna örvæntingar. „Þeir eru skynsamir. Þeir eru hugmyndaríkir og þeir eru trúir málstaðnum. Þeir bera enga virðingu fyrir lífinu, hvorki eigin lífi né annarra. Ég tel að þetta sé því ekki afleiðing örvæntingar heldur sé um að ræða óhefðbundna hernaðaraðgerð gegn okkur," hefur fréttavefur BBC eftir honum.
Mennirnir þrír höfðu allir tekið þátt í hungurverkfalli, sem fjöldi fanga í búðunum hefur verið í frá því í ágúst á síðasta ári og höfðu fangaverðir neytt mat ofan í þá eins og aðra fanga. BBC segir að mennirnir hafi skilið eftir sig bréf, en ekki hefur verið upplýst hvað í þeim stóð.