Drukknar konur hvattar til þess að vera í buxum

Tímaritið Safe!
Tímaritið Safe! Reuters

Lögreglan í Suffolk á Englandi hefur hrint af stað herferð þar sem konur eru hvattar til þess að vera í buxum þegar þær fara út á lífið. Í tímariti sem gefið var út af lögreglunni eru ljósmyndir af dauðadrukknum, ungum konum liggjandi á jörðinni með skilaboðum um að konur eigi ekki að bera allt þótt drukknar séu.

„Ef þú hrinur í jörðina eða deyrð áfengisdauða, mundu þá að pilsið þitt eða kjóllinn getur flettst upp um þig," segir í tímaritinu. „Þá gætirðu verið að sýna meira en þú ætlaðir þér ... gerðu það fyrir okkur að vera í huggulegum buxum og gættu þess áður að hafa farið í vaxmeðferð."

Þá eru konur beðnar um að verða ekki viðskila við vini sína, hringja á leigubíl til þess að komast heim og gæta að sér í áfengisdrykkjunni.

Tímaritið heitir Safe! eða Öruggar! og er hannað með ungar konur í huga til að vara þær við þeim hættum sem geta fylgt því að verða dauðadrukkin úti á lífinu. Reuters segir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert