Ísraelsmenn ráðast inn í suðurhluta Líbanons

Bíll, sem eyðilagðist í loftárás Ísraelsmanna á borgina Saida í …
Bíll, sem eyðilagðist í loftárás Ísraelsmanna á borgina Saida í suðurhluta Líbanons í morgun. Reuters

Ísraelsher hefur ráðist inn í suðurhluta Líbanons í tengslum við aðgerðir gegn Hezbollah-skæruliðum þar. Sky fréttastofan hefur eftir talsmönnum Ísraelshers, að hermenn væru að leita að stöðum þar sem eldflaugum hefur verið skotið á Ísrael. Talsmennirnir báru til baka fréttir um að ísraelsk F-16 orrustuflugvél hefði verið skotin niður yfir Líbanon.

Ýmsir leiðtogar, þar á meðal Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, og Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hafa í dag hvatt til þess að alþjóðlegir friðargæslumenn verði sendir til suðurhluta Líbanons til að stöðva átök Ísraelsmanna og Hezbollah-liða. Blair sagði við blaðamenn í St. Pétursborg, þar sem leiðtogafundur átta helstu iðnríkja heims, stendur yfir, að friðargæsluliðið verði að vera fjölmennt og með skýrt afmörkuð verkefni. Um 2000 eftirlitsmenn eru nú á vegum SÞ á landamærum Ísraels og Líbanons.

„Það mun augljóslega taka nokkurn tíma að safna þessu liði saman," sagði Blair og bætti við að friðargæslumennirnir gætu ekki starfað þar fyrr en búið væri að stöðva átökin milli Ísraelsmanna og Hezbollah.

Eldflaugar Hezbollah hafa m.a. lent á hafnarborginni Haifa í norðurhluta Ísraels. Hafa Ísraelsmenn hótað því að lama raforkukerfi Líbanons ef eldflaugaárásunum verður haldið áfram.

Ísraelsmenn gerðu loftárás á Beirút, höfuðborg Líbanons, snemma í morgun og heyrðust þrjár sprengingar í suðurhluta borgarinnar. Þá kviknaði eldur í höfn Beirút.

Yfir 160 manns, aðallega óbreyttir borgarar, hafa fallið í Líbanon í árásum Ísraelsmanna. Um 24 Ísraelsmenn hafa látið lífið í árásum Hezbollah.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert