Rúmlega sextíu þingmenn í Wisconsin í Bandaríkjunum hafa krafist þess að kennari við Wisconsin-Madison háskólann verði látinn hætta störfum þar sem hann heldur því fram að bandarísk stjórnvöld hafi sjálf staðið að baki árásunum á Bandaríkin þann 11. september árið 2001.
Kennarinn Kevin Barrett hafði verið ráðin til að stjórna námskeiði við skólann, um Íslam fyrir byrjendur. Eftir að Barret lýsti skoðunum sínum í spjallþætti í júní sl. var sett af stað rannsókn á vegum skólans á því hvort Barrett væri hæfur til kennslu. Rannsóknarnefndin komst svo að því að hann væri hæfur leiðbeinandi, sem hefði rétt á að segja skoðun sína.
Þingmennirnir hafa fordæmt úrskurðinn og saka Barrett um „akademískan óheiðarleika" og krefjast þess að honum verði sagt upp störfum. Barrett sjálfur hefur tjáð sig um málið opinberlega og segir forsvarsmann nefndarinnar á nornaveiðum.