Myrti fanga sem sýndi ásatrú ekki virðingu

Michael Lenz.
Michael Lenz. AP

Bandaríski fanginn Michael Lenz verður tekinn af lífi næsta fimmtudag fyrir að myrða samfanga sinn, Brent Parker, sem hann stakk til dauða fyrir að taka ekki ásatrú alvarlega. Parker var myrtur í fangelsinu Augusta Correctional Center en þar voru fangar saman komnir sem aðhyllast ásatrú. Lenz sagði við réttarhöldin í kjölfarið að Parker hefði þurft að myrða til að vernda orðstír goðanna.

AP fréttastofan skýrir frá þessu og tekur fram að ásatrú feli ekki í sér ofbeldi og að aðrir tilbiðjendur í fangelsinu réttlæti ekki ofbeldi með henni.

Ásatrú er sögð njóta sívaxandi vinsælda í fangelsinu og telja menn það stafa af því að fangar vilji vald, vernd og samheldni. Guðfræðingurinn Britt Minshall, fyrrum lögreglumaður og nú prestur í Baldimore sem sinnir föngunum, segir gengjamenningu fangelsa einnig eiga sinn þátt í þessu. Hvítir fangar sem óttist þeldökka fanga myndi gengi eða hópa og velji ásatrú sem trúarbrögð sem veiti þeim aukið öryggi.

Milli 10 og 20.000 manns eru ásatrúar í Bandaríkjunum. Ekki er ljóst hversu margir þeirra eru fangar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka