Mesta mannfall frá því hernaður Ísraela á Gasa hófst

Særður Palestínumaður fluttur á sjúkrahús á norðurhluta Gasasvæðisins í gær.
Særður Palestínumaður fluttur á sjúkrahús á norðurhluta Gasasvæðisins í gær. MOHAMMED SALEM

Tuttugu og þrír Palestínumenn létu lífið í hernaðaraðgerðum Ísraelshers á Gasasvæðinu síðastliðinn sólarhring og sex eru lífshættulega slasaðir. Níu herskáir Palestínumenn, þrjú börn og fatlaður maður eru á meðal hinna látnu. Fleiri hafa ekki fallið á einum sólarhring á svæðinu frá því árásir Ísraela hófust þann 25. júni. 140 Palestínumenn hafa látið lífið í árásum Ísraela.Um helmingur þeirra óbreyttir borgarar. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.

Saeb Erekat, einn helsti samningamaður Palestínumanna og aðstoðarmaður Mahmoud Abbas, leiðtoga Palestínumanna, hvatti alþjóðasamfélagið til þess í gær að gleyma ekki þjáningum Palestínumanna vegna átakanna í Líbanon. “Þetta er hið gleymda stríð. Við hvetjum alþjóðasamfélagið til að skerast í leikinn,” sagði hann. Ísraelsher var kallaður heim frá Gasasvæðinu á síðasta ári eftir 38 ára hersetu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert