Hulunni svipt af einkalífi franskra stjórnmálamanna

Segolene Royal forsetaframbjóðandi í Frakklandi, þykir glæsileg kona og er …
Segolene Royal forsetaframbjóðandi í Frakklandi, þykir glæsileg kona og er hún nú sögð vilja notfæra sér það. REGIS DUVIGNAU

Segolene Royal, forsetaframbjóðandi í Frakklandi, hefur lýst því yfir að hún muni ekki stefna tveimur tímaritum sem birtu myndir af henni og fjölskyldu hennar á ströndinni en myndirnar voru teknar í leyfisleysi. Þykir afstaða hennar til marks um breytt viðhorf franskra stjórnmálamanna til fjölmiðlaumfjöllunar um persónu þeirra og einkalíf en þeir hafa fram á síðustu ár haldið einkalífi sínu úr kastljósi fjölmiðlanna í skjóli strangra laga um friðhelgi einkalífsins. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Á allra síðustu árum hefur áhersla franskra stjórnmála hins vegar færst meira og meira yfir á persónuleika leiðtoganna og segja þarlendir stjórnmálaskýrendur það ekki síst skýrast af því að stjórnmálamenn hafi viljað spila á ímynd sína sér til framdráttar.

Talsmaður Royal segir hana líta svo á að myndbirtingin brjóti gegn friðhelgi einkalífs hennar en að ákvörðun hennar um að leita ekki réttar síns sé tekin á þeirri forsendu að hún „vilji ekki gefa ljósmyndurunum meira vægi en þeir eigi skilið”.

Stjórnmálaskýrendur benda hins vegar á að bæði Royal og helsti keppinautur hennar hægrimaðurinn Nicolas Sarkozy hafi á undanförnum mánuðum ýtt undir umfjöllun um einkalíf sitt en bæði hafa þau veitt slúðurblöðum persónuleg viðtöl og setið fyrir á myndum sem leggja áherslu á persónuleika þeirra og einkalíf fremur en stjórnmálaskoðanir þeirra og stefnumál. Þannig hefur franska þjóðin fylgst náið með hjónabandsmálum Sarkozys og Ceciliu eiginkonu hans og fyrir skömmu sátu þau fyrir á myndum í tilefni þess að þau hefðu tekið saman að nýju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert