Stúlka sem hvarf fyrir átta árum hugsanlega fundin

Verið er að rannsaka hvort stúlka, sem hefur gefið sig fram við lögreglu í Austurríki, sé Natasha Kampusch, sem hvarf á leið til skóla árið 1998, þá tíu ára gömul. Stúlkan segist hafa verið í haldi manns skammt frá þeim stað þar sem hún hvarf. Ættingjar stúlkunnar segjast sannfærðir um að stúlkan sé Natasha, en DNA-próf verða gerð á henni auk þess sem lögregla er að láta tölvugera eldri myndir af stúlkunni.

Að sögn stúlkunnar var henni haldið í bílskúr mannsins sem rændi henni, þar hafði hún aðgang að blöðum og sjónvarpi, auk þess sem maðurinn fór með hana í stuttar göngur. Maðurinn sem grunaður er um mannránið er sagður hafa framið sjálfsvíg með því að kasta sér fyrir lest í gær.

Hvarf Natöshu vakti mikla athygli í Austurríki á sínum tíma og var gerð víðtæk leit að henni, þar sem ár voru m.a. slæddar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert