Lífsýni úr Priklopil sent til Interpol

Natascha Kampusch
Natascha Kampusch Reuters

Austurríska lögreglan hefur sent lífsýni úr mannræningja austurrísku stúlkunnar, Natascha Kampusch, til Interpol. Á að kanna hvort Wolfgang Priklopil tengist glæpum í öðrum löndum, að sögn talsmanns austurrísku lögreglunnar. Priklopil framdi sjálfsmorð eftir að Kampusch slapp úr haldi nýverið eftir að hafa verið rænt fyrir átta árum síðan.

Ekki þykir hins vegar líklegt að hinn 44 ára gamli Priklopil tengist öðrum glæpum en austurríska lögreglan hefur fengið margar fyrirspurnir frá útlendum starfsbræðrum sem rannsaka svipuð mál í sínum heimalöndum.

Kapusch hefur hingað til ekki viljað koma fram opinberlega en sálfræðingur hennar las upp bréf frá henni í síðustu viku. Fjölmiðlafulltrúi hennar segir að Kampusch muni fljótlega senda mynd af sér til fjölmiðla og koma fram í ríkissjónvarpinu í Austurríki. Að sögn fjölmiðlafulltrúans hafa erlendir fjölmiðlar sýnt málinu mikinn áhuga og hafa breskir fjölmiðlar boðið Kampusch fleiri hundruð þúsund evrur fái þeir viðtal við hana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert