Jafn mikið um pyntingar í Írak nú og í valdatíð Saddams Hussein

Börn með íraska þjóðfánann á fyrsta skóladegi sínum í bænum …
Börn með íraska þjóðfánann á fyrsta skóladegi sínum í bænum Najaf í gær en 6 milljónir barna hófu nám að loknu sumarleyfi í Írak í gær. AP

Jafn mikið og jafnvel meira er um pyntingar í Írak nú og í valdatíð Saddams Hussein, fyrrum Íraksforseta, samkvæmt upplýsingum sérfræðings Sameinuðu þjóðanna í pyntingarmálum. Sérfræðingurinn Manfred Nowak segir ástandið í Írak stjórnlaust og að pyntingar séu framkvæmdar af íröskum öryggissveitum, herflokkum og uppreisnarmönnum. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Nowak segir, í skýrslu samtakanna um ástandið í Írak, að lík sem berast til líkhússins í Bagdad beri iðulega merki hrottalegra pyntinga og að áverkar á þeim staðfesti vitnisburð íraskra flóttamanna sem segist hafa verið pyntaðir.

„Það sem flestir segja er að ástandið varðandi pyntingar í Írak sé algerlega stjórnlaust,” segir hann. „Ástandið er svo slæmt að margir segja það verra en það var í valdatíð Saddam Husseins.”

Í skýrslunni kemur fram að fangar í Írak sæti oft barsmíðum og pyntingum með rafmagni, sýru og eldi. Þá megi oft sjá áverka eftir pyntingar á höfðum þeirra og kynfærum, auk þess sem þeir séu illa handleggs- og fótbrotnir. Augu séu einnig stungin úr fólki, það húðflett og skrúfum skrúfað í það eða nöglum neglt í það.

Fram kemur í skýrslunni að fólk sæti ekki síður pyntingum í fangelsum íraskra yfirvalda en í haldi sjálfskipaðra herflokka og uppreisnarmanna í landinu.

Nowak segir ómögulegt að hlutlaus rannsókn fari fram á málinu í Írak eins og málum sé nú háttað, þar sem ekki væri öruggt fyrir starfsmenn stofnunarinnar að fara út fyrir græna svæðið í Bagdad sem er á valdi Bandaríkjahers.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert