Íslömsk mannréttindasamtök á Bretlandi segja það furðu sæta að Jack Straw, þingmaður og fyrrum utanríkisráðherra, hafi farið þess á leit við múslimakonur að þær tækju niður blæjur sínar þegar þær kæmu að máli við hann í kjördæmi hans, Blackburn. Það væri ,,skelfilegt" og með því sýndi Straw gríðarlegt skilningsleysi.
Straw hefur viðurkennt að hafa beðið konur með blæjur fyrir andliti um þetta þegar þær hafa heimsótt hann í kjördæmið. Straw sagði Sky fréttastöðinni að hann teldi blæjuna geta valdið erfiðleikum í samskiptum fólks, þar sem hún væri tákn fyrir þann mun sem væri milli manna. Hann sæi því til þess að kona væri við hlið sér þegar hann bæði múslimakonur að taka niður blæjuna, en þetta snerist um samskipti.
„Ástæðan fyrir því að maður horfir framan í fólk er sú að þannig sérðu það og getur haft samskipti við það út frá viðbrögðum þess, sem þú lest úr andlitunum, líkt og þú ferð eftir því sem berst þér til eyrna," sagði Straw. Hann virti það ef konan kysi að taka ekki niður blæjuna.