Tíu ára fangelsi fyrir að umskera dóttur sína

Khalid Adem fyrir réttinum í síðasta mánuði.
Khalid Adem fyrir réttinum í síðasta mánuði. AP

Dómstóll í Bandaríkjunum hefur dæmt eþíópískan innflytjanda í tíu ára fangelsi, en hann var fundinn sekur um að hafa limlest tveggja ára dóttur sína með því að klippa af henni snípinn með skærum. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem dómur gengur í máli sem þessu í Bandaríkjunum.

Frá þessu greinir fréttavefur BBC.

Maðurinn, Khalid Adem, grét hástöfum þegar kviðdómur í Lawrenceville í Georgíuríki las upp úrskurðinn. Hann hafði neitað því fyrir dómi að hafa umskorið stúlkuna og sagðist telja slíkt hryllilegt. Stúlkan er nú sjö ára. Dómnum var sýndur vitnisburður hennar á myndbandi og þar sagði hún að faðir sinn hafi „klippt í sig“.

Móðir stúlkunnar kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir því fyrr en hátt í tveim árum síðar að stúlkan hefði verið limlest. „Þetta var brot gegn réttindum hennar sem barns, réttindum hennar sem konu og umfram allt réttindum hennar sem manneskju, hún verður aldrei aftur söm,“ sagði móðir stúlkunnar, Fortunate Adem, fyrir réttinum.

Bandarísku kvenréttindasamtökin Equality Now segja að þetta sé fyrsta skráða tilfelli kynfæramisþyrmingar í Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert