Segir sambandsríki ESB verða að berjast gegn ofbeldisfullum tölvuleikjum

Ú Grand Theft Auto: Vice City, sem þykir nokkuð ofbeldisfullur …
Ú Grand Theft Auto: Vice City, sem þykir nokkuð ofbeldisfullur tölvuleikur. mbl.is

Franco Frattini, sem fer með dóms- og innanríkismál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, segir að sambandsríkin verði að skera upp herör gegn tölvuleikjum sem innihalda gróft ofbeldi og miskunnarleysi. „Því miður eykst fjöldi þeirra tölvuleikja sem innihalda slíkt ofbeldi, og í sumum þeirra er slíkt ofbeldi jafnvel vegsamað,“ sagði Frattini í bréfi sem hann sendi innanríkisráðherrum ríkjanna 25.

Frattini segir að í einum leik sem nú sé á markaði í Evrópu séu framin bæði andleg og líkamleg ofbeldisverk gagnvart ungri stúlku, og segist hann hneykslaður á því. „Leikir þar sem maður á að skjóta niður venjulegt fólk sem er á gangi um götur, eða þar sem maður á að leggja börn í einelti eru önnur dæmi um aðra siðspillta og viðbjóðslega leiki,“ sagði Frattini.

Hann viðurkennir hins vegar að ábyrgðin liggi fyrst og fremst hjá foreldrum barna. „Samt sem áður tel ég að sambandið hafi ákveðnu hlutverki að gegna í þessu samhengi,“ sagði Frattini.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert