Kona með blæju mun flytja jólaávarp Channel 4

Niqab.
Niqab. Reuters

Breska sjónvarpsstöðin Channel 4 hefur ákveðið að láta konu með blæju fyrir andliti flytja árlegt jólaávarp stöðvarinnar. Konan heitir Khadija, er breskur ríkisborgari en ættuð frá Zimbabve. Hún ber svokallaða niqab sem er blæja sem hylur allt andlitið nema augun. Ástæðan fyrir þessari ákvörðun Channel 4 er mikil umræða í bresku samfélagi um trúarleg klæði múslíma.

Jólaávarpið var fyrst sent út árið 1993 og þá til höfuðs ræðu Englandsdrottningar. Ekki verður greint frá efni ræðunnar fyrr en nær dregur jólum. Af fyrri ræðumönnum má nefna skemmtikraftinn Ali G, Simpsons teiknimyndapersónurnar og bandaríska prestinn Jesse Jackson. Khadija starfar sjálfstætt við fyrirlestrahald um íslam og Kóraninn.

Mikið var fjallað um rétt múslímakvenna til að bera niqab fyrr á þessu ári í Bretlandi eftir þingmaðurinn Jack Straw sagði blæjuna koma í veg fyrir eðlileg samskipti fólks. BBC segir frá þessu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert