Berlusconi farinn til Bandaríkjanna í hjartarannsókn

Hér sést Berlusconi aðeins andartökum áður en hann féll er …
Hér sést Berlusconi aðeins andartökum áður en hann féll er hann flutti ræðu í Toskana á Ítalíu í síðasta mánuði. AP

Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, er nú staddur í Bandaríkjunum þar sem hann mun fara í hjartarannsókn. Berlusconi, sem er sjötugur, fékk aðsvif á stjórnmálafundi í síðasta mánuði.

Ítalskir fjölmiðlar ganga að því vísu að gangþræði verði komið fyrir í hjarta ráðherrans fyrrverandi. Talsmaður Berlusconis vildi hinsvegar ekki staðfesta það að hann muni gangast undir skurðaðgerð. Hann sagði aðeins að Berlusconi færi í rannsókn.

Berlusconi, sem er ríkasti maður Ítalíu og leiðtogi stjórnarandstöðunnar, viðurkenndi í síðasta mánuði að hann ætti hægja á sér. Hann lét ummælin falla eftir að hann yfirgaf sjúkrahúsið þar sem hann dvaldi í þrjá daga eftir að hann féll þegar hann var að flytja ræðu í Toskana.

Læknar sögðu þá að þeir hefðu orðið varir við hjartsláttartruflanir hjá Berlusconi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert