Flugslys ekki færri síðan árið 1963

Flugvél sömu gerðar og vélin sem fórst í Úkraínu.
Flugvél sömu gerðar og vélin sem fórst í Úkraínu. AP

Ekki hafa orðið jafn fá flugslys í heiminum á einu ári og á síðasta ári síðan árið 1963, samkvæmt upplýsingum frá alþjóðlegri flugslysanefnd. Alls var tilkynnt um 156 flugslys á árinu 2006, 22 færri heldur en árið á undan. Alls létust 1.292 í flugslysum árið 2006.

Flugfarþegum fjölgaði hins vegar umtalsvert á árinu.

Flest flugslysin áttu sér stað í Norður-Ameríku eða 32% slysanna. 18% þeirra voru í Afríku, 17% í Asíu, 12% í Suður-Ameríku, 11% í Evrópu, 8% í Mið-Ameríku og 2% í Eyjaálfu.

Alls voru flugslysin 45 í Bandaríkjunum og voru þau hvergi fleiri í heiminum, 11 í Kongó og 6 í Venesúela og Súdan.

Í fjórum flugslysum fórust yfir eitt hundrað manns en flestir létust í flugslysi í Úkraínu þann 22. ágúst eða 170 manns. Er þetta mannskæðasta flugslysið í heiminum frá árinu 2002.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert