Tískuforkólfar heimsins funda um þvengmjóar fyrirsætur

Mjög hefur verið deilt um holdafar fyrirsætna og nú hafa …
Mjög hefur verið deilt um holdafar fyrirsætna og nú hafa helstu tískuforkólfar heims komið saman til að funda um málið. Reuters

Tískubandalög Frakklands, Ítalíu, Bandaríkjanna og Bretlands hafa ákveðið að koma saman til viðræðna um þvengmjóar fyrirsætur sem sjást á tískupöllum víðsvegar um heim. Málið þykir afar umdeilt og margar gagnrýnisraddir hafa bent á að margar fyrirsætur séu svo mjóar að vart geti eðlilegt talist.

Talsmaður bandalags franskra tískufyrirtækja sagði í samtali við AFP-fréttastofuna að fulltrúar frá fjórum áhrifamiklum tískubandalögum hafi hist í París í gær til þess að ræða málið.

Jimmy Pihet neitaði að tjá sig nánar um efni viðræðnanna eða gefa nokkuð upp hvort frekari fundarhöld hafi verið ákveðin. Hann sagði hinsvegar að franska tískubandalagið, ásamt öðrum aðilum í tískuheiminum, muni taka þátt í viðræðum sem franska heilbrigðisráðuneytið hefur skipulagt.

Bandalagið mun í framhaldinu ræða aftur við tískubandalög Ítalíu, Bandaríkjanna og Bretlands.

„Þetta er alvarlegt vandamál sem maður getur ekki leitt fram hjá sér,“ segir í yfirlýsingu sem tískubandalagið sendi frá sér. „Allir hlutaðeigandi aðilar verða að láta sitt af mörkum miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir.“

Pihet lagði hinsvegar áherslu á það að franska bandalagið væri mótfallið að málið myndi ganga svo langt að kveðinn verði upp dómur í þessu máli. „Við teljum að upplýsingar en ekki reglugerðir sé rétta leiðin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert