Blóðug átök við háskólann í Beirút

Stuðningsmenn líbönsku ríkisstjórnarinnar kasta steinum í andstæðinga hennar við háskólann …
Stuðningsmenn líbönsku ríkisstjórnarinnar kasta steinum í andstæðinga hennar við háskólann í Beirút í dag. AP

Al-Manar sjónvarpsstöðin í Líbanon sem er í eigu Hizbollah-samtakanna, greindi frá því í dag að fjórir stuðningsmenn samtakanna hefðu látið lífið í átökum við námsmenn, sem hlynntir eru ríkisstjórn landsins við háskólann í Tarik el-Jadideh í Beirút, höfuðborg landsins í dag. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.

Átökin munu hafa brotist út inni á háskólalóðinni þar sem námsmenn köstuðu steinum og húsgögnum hver í annan og síðan munu þau hafa breiðst út um háskólasvæðið og út á nærliggjandi götur. Þau voru að lokum leyst upp af öryggissveitum sem skutu viðvörunarskotum upp í loftið.

Öryggisyfirvöld í háskólanum segja að minnsta kosti sautján hafa slasast í átökunum. Þau hafa hins vegar ekki staðfest að nokkur hafi látið lífið í þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert