Vegum og brúm var lokað í gær í borginni Boston vegna undarlegra pakka eða spjalda sem dreift hafði verið um borgina í gær og hefur öryggisviðbúnaður ekki verið meiri í borginni síðan 11. september árið 2001.
Talsverðar tafir urðu á umferð og lestarsamgöngum. Á pökkunum voru blikkandi ljós sem sýndu mynd af teiknimyndafígúru.
Fjölmiðlasamsteypan Turner gaf svo fljótlega út yfirlýsingu um að um væri að ræða nýstárlega markaðsherferð, sem reyndar hefði hafist fyrir nokkrum vikum í Boston og níu öðrum bandarískum borgum.
Borgaryfirvöldum finnst uppátækið lítt fyndið og hafa m.a. sagt að ljósin, vírar og rafhlöður, auk staðsetningar tækjanna, við vegi og brýr, hafi ekki verið traustvekjandi.
Þá segjast borgaryfirvöld ætla að sækja málið fyrir dómstólum af hörku. Einn maður hefur verið handtekinn fyrir að koma fyrir fölskum tækjum og óábyrga hegðun. Hann var ráðinn af Turner Broadcasting Systems til að koma tækjunum grunsamlegu fyrir.