Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, hefur sætt harðri gagnrýni frá því að greint var frá því hann hefði borið vitni um það fyrir Winograd-rannsóknarnefndinni þann 1. febrúar að Líbanon-stríðið síðastliðið sumar hefði verið áformað með löngu áður en liðsmenn Hizbollah samtakanna í Líbanon námu tvo ísraelska hermenn á brott eftir árás yfir landsmæri ríkjanna í júlí. Hefur forsætisráðherrann m.a. verið krafinn svars við því hvers vegna Ísraelsher hafi ekki verið búinn undir stríð hafi hernaðurinn verið áformaður með allt að fjögurra mánaða fyrirvara. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.
Óstaðfestar fréttir herma að bráðabrigðaskýrsla nefndarinnar verði birt þann 27. mars og að þar verði sett fram hörð gagnrýni á Olmert, Amir Peretz, varnarmálaráðherra Ísraels, Dan Halutz, fyrrum yfirmann Ísraelshers og Udi Adam, yfirmann hersveita Ísraelshers í norðurhluta landsins, vegna framgang þeirra í stríðinu og aðdraganda þess. Ekki er þó talið að þeir verði persónulega gerðir ábyrgir fyrir óförum Ísraelshers í stríðinu.