Höfundur bókanna um Harry Potter, J. K. Rowling hefur heitið einni og hálfri milljón punda eða um 190 milljónum íslenskra króna verði Madeleine McCann sem stolið var á ferðamannastað í Portúgal skilað óskaddaðri. Breska götublaðið The News of the World stofnaði sjóð sem breskir auðmenn hafa greitt í undanfarið.
Rowling mun hafa beðið um að upphæðinni yrði haldið leyndri en AP fréttastofan hefur heimildir fyrir því að hún sé 1,5 milljónir punda.
Blaðið skýrði frá því að ritstjórar blaðsins ákvæðu með hvaða hætti greitt yrði úr sjóðnum eftir að hafa ráðfært sig við portúgölsk yfirvöld þegar og ef til þess kæmi.
Aðrir sem hafa greitt í sjóðinn eru Sir Philip Green eigandi Top Shop (32 milljónir króna) og Sir Richard Branson (13 milljónir króna) og Simon Cowell (6,3 milljónir króna).
Madeleine McCann hvarf 2. maí eftir að foreldrar hennar skyldu hana og tveggja ára systkini hennar eftir í hótelíbúð á meðan þau snæddu á veitingastað hótelsins á Praia da Luz sumarleyfastaðnum í grennd við Algarve. Portúgalska lögreglan leitar hennar enn.
J.K.Rowling sem er 41 árs er ein af ríkustu konum Bretlands og hefur auður hennar verið metinn á 64 milljarða íslenskra króna.