Bæði borgarstjórinn og makinn hafa skipt um kyn

Jenny Bailey var í gær sett í embætti borgarstjóra Cambridge á Englandi. Baley, sem er 45 ára, er í samvist með annarri konu, Jennifer Liddle, sem áður sat í borgarstjórn Cambridge. Bæði Bailey og Liddle fæddust karlmenn en gengust undir kynskiptaaðgerð þegar þær voru á fertugsaldri.

„Þetta er frábært," sagði Bailey eftir að hafa svarið embættiseiðinn í gær. Hún á tvo syni með fyrrum eiginkonu sinni en þær halda góðu sambandi.

Rob Hammond, skrifstofustjóri borgarstjórnar Cambridge, sagði að vitað hafi verið að þessi embættistaka myndi vekja athygli. „En það er skoðun borgarstjórnarinnar, að kyn og kynhneigð hafi engin áhrif á hæfi fólks til að gegna opinberum embættum," sagði hann.

Bailey, sem er í Frjálslynda demókrataflokknum, var áður aðstoðarborgarstjóri. „Fólk getur litið á mig sem fyrirmynd ef það vill," sagði hún við blaðið Time. „En við sem höfum skipt um kyn viljum aðeins verða eðlileg... Eftir að hafa gengið í gegnum slíka reynslu er maður ánægður ef hægt er að lifa eðlilegu lífi og fást við venjuleg vandamál og þetta er því frábært tækifæri."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert